144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 og er í samræmi við lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Næstu fjögur árin skal samkvæmt þessari ályktun unnið að samgöngumálum í samræmi við þá verkefnaáætlun sem birtist í ályktuninni og er jafnframt í samræmi við ramma samgönguáætlunar fyrir árin 2011–2022 þar sem mörkuð er stefna og markmið sett fyrir allar greinar samgangna á gildistíma áætlunarinnar.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með tillöguna og samgönguáætlun inn í þingið núna og tel það afar mikilvægt en staðreyndin er sú að uppsöfnuð viðhaldsþörf vega er mikil. Undanfarin ár hefur verið skorið verulega niður til viðhalds og uppbyggingar vega en á sama tíma hefur álagið á vegina aukist gríðarlega með sívaxandi aukningu í komu ferðamanna til landsins.

Þá hefur tíðarfar verið með þeim hætti að vegirnir, sérstaklega þar sem umferð er mikil, hafa látið á sjá svo um munar og undanfarnir vetur hafa valdið því að skemmdir eru á vegum sem ekki hefur náðst að bæta. Öflugir innviðir eru auðvitað grunnforsenda þess að þjóðfélög og hagkerfi virki með eðlilegum hætti. Vegir, brýr og göng spila þar stórt hlutverk í samgöngum en auðvitað eru önnur mannvirki sem falla undir þá skilgreiningu á hugtakinu innviðir. Álagið á samgöngukerfið eykst með tilkomu aukins ferðamannafjölda og við því þarf að bregðast en ekki síður með tilliti til hagsmuna þeirra sem hér búa og uppbyggingu hagkerfisins en það er auðvitað mjög mikilvægt þegar við horfum á samspil við atvinnuvegina og ekki síst ferðaþjónustuna. Ef við ætlum að halda áfram að byggja ferðaþjónustu upp svo að sú atvinnugrein geti haldið áfram að vaxa og dafna eru samgöngur gríðarlega mikilvægar í því tilliti.

Hæstv. ráðherra kom í ræðu sinni inn á að þessi áætlun byggi á raunsæi og fyrirhyggju þar sem fjármunir eru takmarkaðir, eins og hæstv. ráðherra lagði áherslu á og ég tek undir. En þegar við horfum á slíka áætlun með tilliti til umferðaröryggis, tjóna- og slysahættu og með tilliti til aukinnar umferðar og viðhaldsþarfar er mikilvægt að fénu sé vel varið. Ég fagna sérstaklega því viðbótarframlagi upp á 500 milljónir sem skal verja til viðhalds á umferðarmestu götum höfuðborgarsvæðisins. Álagið er eðlilega mikið þar og vegir eru víða illa farnir og svo skal auðvitað hafa í huga það ástandsmat sem Vegagerðin vinnur varðandi hringveginn. Þá er í því tilliti mikilvægt að dreifa betur álagi og þar eru á áætlun framkvæmdir við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg sem eru mjög mikilvægir liðir í þeirri uppbyggingu. Þar er um að ræða vegabætur sem hafa setið á hakanum og ég vil fagna því sérstaklega að Kjósarskarðsvegur komist nú loks að og fjármunir settir í mjög svo brýna enduruppbyggingu (Gripið fram í.) og er henni samkvæmt upplýsingum úr fréttatilkynningu með aukafjárveitingu flýtt um eitt ár. Auðvitað er þetta brýnt vegna aukins álags umferðar sem tilkomin er vegna aukningar ferðamanna þar sem Kjósarskarðsvegur tengir Þingvelli við Hvalfjörð og Vesturland en ekki síður fyrir íbúa á svæðinu og staðina í kring. Þar hefur lengi verið kallað eftir þessum endurbótum og stefnt er að því á þessari áætlun að ljúka því með bundnu slitlagi á þann hluta vegarins sem eftir er. Þá vil ég nefna Arnarnesveg sem hefur setið á hakanum í langan tíma, en vegurinn sem liggur í landi Garðabæjar, Kópavogs og Reykjavíkur hefur verið á skipulagsáætlun í rúm 20 ár.

Síðastliðin ár hefur átt sér stað gríðarlega mikil uppbygging og stækkun byggðar í Garðabæ og sérstaklega í Kópavogi við Lindir, Kóra og Hvörf, og er í þessari áætlun tenging Reykjanesbrautar og Fífuhvammsvegar þar sem 320 millj. kr. eru áætlaðar til framkvæmda 2015, 380 millj. kr. til 2016 og 100 millj. kr. 2017 til að ljúka þessum hluta framkvæmdanna. Það er mikið fagnaðarefni. Það sýndi sig til dæmis í vetur sem leið hvað brýnt er orðið að klára þessa tengingu þar sem umferðarþunginn hefur aukist mjög mikið og má lítið út af bregða, eins og ófærð einn dag í vetur sýndi okkur þar sem skapaðist mikið umferðaröngþveiti þar sem þessi vegarbútur, ef ég kalla hann svo, hefði bjargað miklu. Þannig er orðið mjög aðkallandi að klára þennan veg sem hefur verið á áætlun í svo langan tíma og ein þeirra framkvæmda sem hafa þurft að bíða vegna niðurskurðar og aðhalds í ríkisfjármálum.

Eins og ég nefndi í upphafi snýst samgönguáætlun og uppbygging innviða um fleira en bara vegi. Í áætluninni er komið inn á hafnarframkvæmdir og flugsamgöngur og endurbyggingu og viðhald hafna og flugvalla. Hér hafa mál Landeyjahafnar verið reglubundið á dagskrá og í umræðum á Alþingi og það er heilt samfélag sem á allt sitt undir því að lausn finnist á þeim málum. Ég get lítið annað en lagt áherslu á að mjög mikilvægt er að lausn finnist á því máli sem allra fyrst. Það þarf færustu sérfræðinga til að leysa umgjörð hafnarinnar, dýpkunaráform, ferjumál og farþegaaðstöðu. Ég trúi því að með pólitíkinni, stjórnsýslunni og okkar færustu sérfræðingum náist að klára það mál en brýnt er að það gerist sem fyrst og í því samhengi þurfi mögulega að horfa til Þorlákshafnar og hraðskreiðara skips, en vissulega þarf að skoða alla mögulega kosti í stöðunni.

Ég hef nefnt Kjósarskarðsveginn sérstaklega og Arnarnesveginn, en fram kemur í áætluninni að ekki eru ætlaðar neinar fjárveitingar til framkvæmda við Sundabraut. Á bls. 42 í áætluninni er að finna umfjöllun um Sundabraut og þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er fjárveiting til þessa verkefnis en fyrirhugað er að skoða kosti þess að gera Sundabraut í einkaframkvæmd.“

Með þá samgöngubót og öryggi í huga sem er í húfi þá er þetta framkvæmd sem ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að hraða athugun á og kanna hvort mögulegt sé að ljúka eða fara í þær framkvæmdir. Ég met það svo að öryggi sé einn mikilvægasti liðurinn í því að skoða þá framkvæmd.

En áætlunin er komin til þingsins og ég fagna því og ítreka þakkir til hæstv. ráðherra. Málið fer svo til nefndar og kemur aftur inn í þingið og þá getum við hv. þingmenn rætt þetta frekar.