144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að það sé full ástæða fyrir mig sem 4. þm. Reykv. n. að koma hér í þennan ræðustól þegar menn ræða samgönguáætlun og ræða vegaframkvæmdir í Árneshreppi.

Fyrst vil ég óska hæstv. ríkisstjórn innilega til hamingju með að hafa þó tekist að koma fram samgönguáætlun þótt það sé hugsanlega táknrænt að það er gert á þeim degi sem áður var búið að skipuleggja sem lokadag Alþingis. En betra er seint en aldrei. Ég gleðst líka yfir því að það skuli vera lagðar 1.850 millj. kr. til samgönguframkvæmda á þessu ári og óska líka hæstv. ráðherra til hamingju með það. Það var ekki hægt að senda hana jafn vanbúna af fjármunum inn í sitt fyrsta ár eins og drög voru lögð að, þannig að ég er ánægður með röskleika hennar að hafa barið þetta út úr ríkisstjórninni. Sömuleiðis má óska Vegagerðinni til hamingju með að fá meiri peninga og enginn veit það betur en sá sem hefur setið í mörgum ríkisstjórnum og setið í ríkisstjórn með hv. þm. Kristjáni L. Möller að Vegagerðinni verður mjög mikið úr hverri einustu krónu og fáar stofnanir sem fara jafn vel með fé.

Ég gæti auðvitað fagnað því sem þingmaður Reykvíkinga að af þessum 1.850 millj. kr. koma 500 til samgöngubóta í Reykjavík. Sem fyrrverandi ferðamálaráðherra get ég verið óskaplega glaður yfir því að 1.350 millj. kr. fara í ferðamannavegi.

En það eru samgöngubætur á leiðinni frá Reykjavík og í Árneshrepp sem mér eru hugstæðastar. Hér hefur aldrei verið haldin umræða um samgönguáætlun án þess að ég hafi vakið eftirtekt á þessu. Af því ég er nú sérlega jákvæður á þessum fyrsta degi vorsins sem hefur faðmað Reykjavík þá vil ég líka segja að ég er ánægður með þá framför sem er varðandi bætta vegi þangað. Það er ástæða til þess að fagna því að á þessu ári er verið að setja 200 millj. kr. í Bjarnarfjarðarhálsinn og gott ef þær eru ekki 450 á næsta ári. Þetta eru stórkostleg tíðindi fyrir okkur sem höfum tekið það á okkur að vera rödd þeirra sem búa í Árneshreppi þegar kemur að samgöngum. Ég hef haldið ræður um þetta hér ár eftir ár og er til marks um það hversu létt er í mér pundið að það er ekki fyrr en núna sem góðir menn og væntanlega ráðherrar hafa tekið á sig rögg og farið í almennilegar vegabætur. Þetta er mjög jákvætt og gott fyrir þá sem nota veginn, en það má ekki nema staðar hér. Veiðileysuhálsinn er eftir. Það verður að setja peninga í hann til þess að koma honum í þannig horf að það sé a.m.k. hægt að fara um þessa vegi. (Gripið fram í.)

Nú tel ég rétt að ég segi þingheimi litla dæmisögu af samskiptum þingsins við Árneshrepp, ætla nú að láta vera að rifja upp þá ágætu tillögu sem ég og nokkrir fleiri þingmenn fluttum á sínum tíma, ég held undir forustu núverandi hæstv. forseta Einars Kristins Guðfinnssonar, og var samþykkt um sérstakt atlæti af hálfu landsstjórnarinnar gagnvart Árneshreppi. Í vetur ætluðu skólabörn í Árneshreppi að koma og skoða þingið, heimsækja þingið eins og fjöldamörg skólabörn gera á hverjum vetri. Allur skólinn ætlaði að koma, sex börn, með kennurunum. Ég held að það hafi verið í þriðju atrennu sem þau komust hingað suður vegna þess að þau komust aldrei yfir Veiðileysuhálsinn, það var alltaf ófært. Það veit enginn nema sá sem hefur verið þar í ófærð og getað skotist út undir skjóli Vegagerðarinnar hvað það er að vera aðkrepptur og innikrepptur og veðurkrepptur í þeim stað. Þetta er það byggðarlag á landinu sem býr við verstar samgöngur. Það eru erfiðari samgöngur við Árneshrepp en við Grímsey.

Því segi ég það að við megum ekki gleyma því að Ísland er þannig land að ef fólk vill búa á ystu annesjum þá á að gera því það kleift. Ég ætla ekki að fara dýpra í þetta mál, en vildi leggja áherslu á það gagnvart hæstv. ráðherra, gagnvart öllum þeim góðu þingmönnum sem hafa áhuga á samgöngumálum og gagnvart Vegagerðinni, að þetta er næsta skref, það verður að ráðast í bætur á þessum erfiðasta kafla leiðarinnar í Árneshrepp.