144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[16:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það var mér sérstakt gleðiefni að geta komið á samgöngubótum á Ströndum og deili þeirri skoðun með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er svæði sem þarf að líta til, þess vegna er Bjarnarfjarðarháls inni í samgönguáætlun, ég er mjög ánægð með það og ég vona að hann njóti áfram velvilja þingmanna í þingnefnd þegar þetta mál verður til tekið umfjöllunar. Og úr því að hv. þingmaður nefndi Veiðileysuháls þá er það alveg rétt að það vantar peninga í hann á næstu árum, en hins vegar er gert ráð fyrir fé í hann árið 2018, 200 millj. kr., þannig að lengi er von á einum eins og þar stendur, (Gripið fram í.) en það er mikilvægt að þetta komi fram.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði sem komu fram í umræðunni og var spurt að, þótt ég geti ekki farið í hvert einasta atriði þá ætla ég að tæpa á ýmsu.

Í fyrsta lagi flugmálin og viðhald á flugvöllum. Þá get ég staðfest það við hv. þm. Kristján Möller að þeim fjármunum sem ráðstafað var í fjárlagagerðinni í fyrra verður veitt til viðhalds á flugvöllum. Það er hins vegar nauðsynlegt að það komi líka fram að það þarf að gera miklu betur, það er auðvitað mitt verkefni sem ráðherra málaflokksins, ég viðurkenni að það þarf að gera miklu betur og er alveg ljóst að miklu meira fé þarf í viðhald á flugvöllum á næstu árum. Ég nefndi í ræðu minni að við sæjum fram á að þurfa 1 þús. millj. kr. Það er augljóst að þarna þarf að bæta betur í og ég þarf að leggja mig fram við að sækja meira fé í það og ég veit að hv. þingmenn munu ábyggilega veita okkur liðsinni í því.

Það er rétt að taka fram að gert er ráð fyrir að þessi áætlun sé endurskoðuð að ári, þannig að þá förum við aftur að hnika til tölum o.s.frv. Þessi tillaga að samgönguáætlun er undir þá sök seld að hún er að koma fram í raun og veru í þriðja sinn af því ekki tókst að afgreiða hana í tvö fyrri skiptin, nú ætla ég ekki að segja annað en það og ég hef nú þegar beðist hreinlega afsökunar á því að hún kemur auðvitað afskaplega seint fram, það er enginn vafi á því, en hún er að minnsta kosti komin hér til umræðu.

Vegna þeirra 1.800 millj. kr. sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni vil ég láta það koma fram að öll umræða um samgöngumál og skipulag samgöngumála og ákvarðanir um fjárheimildir vegna þeirra fer fram á grundvelli mjög ákveðins ferils. Það á sér stað mikið samráðsferli við sveitarstjórnarmenn, við landshlutasamtök, það á sér stað vinna innan stofnana innanríkisráðuneytisins og byggt á tillögum sem áður hafa verið fluttar á grundvelli fyrri samgönguáætlana. Samgönguáætlanir eru ekki eitthvað sem detta af himnum ofan einn daginn, þær eru margra ára verkefni. Það tekur Vegagerðina til dæmis mörg ár að undirbúa sín verk, þannig að ekkert af þessu er eitthvað sem einstökum ráðherrum dettur í hug á lokametrunum. Þess vegna vil ég að það komi skýrt fram að þær framkvæmdir sem nefndar voru í tengslum við þessar 1.800 milljónir eru allt framkvæmdir sem voru á áætlun. Það er bara verið að flýta þeim. Það er verið að flýta verkum, það er ekki verið að finna upp á nýjum verkefnum og setja þau á dagskrá sem eitthvert sérstakt áhugamál ráðherrans. Þetta er gert til þess að flýta verkefnum til þess að reyna að auka í í þessum mikilvæga málaflokki. Við erum öll sammála um að þar þurfum við meira fé, en ég held að það sé mikilvægt að menn geti að minnsta kosti fallist á að það var þó skárra en ekki að geta fengið þessa fjármuni til viðbótar, þótt ég mundi gjarnan vilja sjá þar miklu meira fé. Þetta eru samt 112 milljarðar á fjögurra ára tímabili og það er þá okkar að forgangsraða í þau verkefni sem við teljum vera brýnust.

Ég vil nefna það sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi varðandi sýn í umferðaröryggismálum. Þá ber að geta þess að slík stefnumörkun á sér stað og hana má finna í 12 ára áætlun þar sem við setjum fram meira stefnumarkandi hugmyndir en eru í þeirri aðgerðaáætlun sem fjögurra ára áætlunin er. Ég deili með honum þeirri skoðun sem hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum, nú síðast hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að öryggismál í samgöngumálum eru grundvallaratriði. Það er ekki síst þess vegna sem mín skoðun er sú að við þurfum að gæta mjög vel að viðhaldi og þjónustu á vegakerfi landsins, hvort sem við lítum til þéttbýlisins á höfuðborgarsvæðinu eða annarra þéttbýlisstaða, til dreifðari byggða eða dreifðustu byggðanna á norðvestur- og norðausturhorninu. Allt þetta skiptir máli.

Ég vil líka koma inn á nokkuð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í sinni ræðu að víða væru malarspottar úti um land. Það er reyndar svo að á þjóðvegi 1 eru enn þá ómalbikaðir kaflar, t.d. í Berufjarðarbotni en við vitum náttúrlega að þar hafa verið miklar deilur um vegarstæðið og hvernig það eigi að liggja. Við vonum auðvitað að við förum að sjá til lands í því. En síðan eru eyður hér og hvar sem við þurfum að geta sett meiri fókus á. Þess vegna tel ég mikilvægt þegar við lítum lengra fram í tímann að við reynum að líta á þetta viðhald — mér finnst þetta raunverulega vera hluti af viðhaldi — sem forgangsatriði um leið og við gerum okkur grein fyrir því að einstaka stórframkvæmdir eru nauðsynlegar.

Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson nefndi öryggismál sjófarenda og nefndi sérstaklega smábátana í því sambandi. Ég tel að þar reynum við nú alltaf að gera eins og við getum í að auka öryggið og þar rennur þetta náttúrlega saman við aðra málaflokka á vettvangi innanríkisráðuneytisins þar sem við lítum sérstaklega til öryggis sjófarenda. Það er því allt saman í farvegi.

Ég vil taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um mikilvægi rannsókna. Oft er betra að undirbúa hlutina betur og taka lengri tíma í það og vera með öruggara land undir fótum þegar farið er í verkið. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar að þessu kemur. Á vettvangi samgöngustofnana hefur nokkru fé ávallt verið varið til rannsókna. Þeim peningum er að mínu viti afar vel ráðstafað og vel varið. Í þessari áætlun erum við til dæmis með ákveðið rannsóknafé vegna Seyðisfjarðarganga eins og hér hefur komið fram. Það er mikilvægt að þeim rannsóknum verði áfram undið fram, þar er um að ræða framkvæmd sem skiptir miklu máli fyrir Austfirðinga. Það þarf samt að koma fram að eins og stefnir í núna er það 20 milljarða framkvæmd og menn þurfa að huga vel að skipulagi slíkra framkvæmda áður en í þær verður farið og líta til bæði svæðisins í heild og annarra framkvæmda sem þörf er á að fara í.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og reyndar líka hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndu tillögur nefndar um kostnað við innanlandsflug. Það er alveg rétt að í þessari samgönguáætlun felst svo sem ekkert sérstakt hvað það varðar. Auðvitað er það þannig að þessar álögur, ef við getum orðað það þannig, eru mestmegnis á forræði fjármálaráðuneytisins, en við höfum haldið áfram því samtali sem hófst í kjölfar skýrslu nefndarinnar. Það þarf að taka fram að það kom held ég mjög mörgum töluvert á óvart hversu lítið fékkst þó út úr því að lækka álögurnar, en auðvitað skiptir allt máli í þessu.

Hér var spurt um styrkta innanlandsflugið, hvort ekki stæði til að bjóða það út. Því er til að svara að við framlengdum styrkta flugið til áramóta. Þetta var eitt af þeim verkum sem blasti frekar snemma við eftir að ég settist í innanríkisráðuneytið, þá þurfti að fara að taka afstöðu til þess og heppilegra var talið að miða við áramót. Ég geri ráð fyrir því að það gangi fram með þeim hætti og við sjáum fram á það um áramótin að það verði allt saman boðið út. Þá þarf að skoða í leiðinni staðina sem þar eru undir og hvort þar sé allt rétt eða hvort það þurfi að bæta öðrum við o.s.frv. Ég er ekki með nein tíðindi um það á þessum degi önnur en þau að gert er ráð fyrir því að það fari allt saman af stað.

Hér hefur verið rætt um Sundabraut og samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil ítreka þá skoðun mína að mér finnst mikilvægt að menn horfi á þau mál heildstætt. Við hljótum að geta verið sammála um að það sé ágætt að auka val manna og menn eigi meira val um fararskjóta, hvort sem þeir vilja nota fæturna til að komast á milli, ganga eða hjóla eða hvort þeir vilja keyra. Allt þarf þetta að geta unnið saman. Við eigum ekki að stilla þessu upp hverju á móti öðru. Við þurfum að láta þetta vinna saman. Við þurfum til dæmis að gæta að því að Sundabraut, sú framkvæmd, er líka gríðarlega mikilvæg fyrir nágrannasveitarfélögin. Það er gert ráð fyrir henni á skipulagi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að skoða það betur áfram og eins að það séu fleiri atriði í samgöngumálum þar sem litið er til hugsanlegrar aðkomu einkaaðila sem hægt er að skoða. Þó að þess sjái ekki stað í þessari áætlun hefur það verið nokkuð rætt á undanförnum árum. Við skulum taka fram að ef við horfum á svona stærstu samgönguframkvæmdirnar þá eru það faktískt Hvalfjarðargöngin sem hafa kannski sannað sig hvað best sem vel heppnuð einkaframkvæmd.