144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er ekki í gangi nein starfsáætlun hjá þinginu, það er heldur ekki í gangi fundatafla hjá nefndum heldur er þingið í einhvers konar lausu lofti. Þegar við erum komin inn í það ástand tekur hv. þm. Höskuldur Þórhallsson þá ákvörðun í nefnd í morgun sem nefndarformaður að rífa út mál sem snýr að því að taka skipulagsvaldið af þremur sveitarfélögum, Reykjavík, Egilsstöðum og Akureyri. Við fáum þetta mál gerbreytt, þetta snerist upphaflega um Reykjavíkurflugvöll en við fáum það inn gerbreytt kl. 8.13 í morgun í pósthólf okkar. Kl. 8.25 ákveður þingmaðurinn að rífa það út úr nefnd með fulltingi þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Virðuleg forseti. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Við í minni hlutanum mótmæltum þessu og óskuðum eftir því að fulltrúar þessara sveitarfélaga og fulltrúar ráðuneytisins kæmu fyrir nefndina til að fara yfir áhrif breytinganna með okkur og því var hafnað. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég verð að koma þessum mótmælum á framfæri við forseta (Forseti hringir.) vegna þess að við viljum iðka vönduð vinnubrögð og þessi vinnubrögð eru það ekki.