144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef af því þungar áhyggjur hvert við erum að stefna með þetta Alþingi. Ramminn var tekinn út af dagskrá til að hér yrði boðað til fundar til þess að reyna að finna einhverja lausn á því máli, en enginn fundur hefur átt sér stað, forseti, ekki neinn. Síðan kemur þetta mál hér í morgun sem er alveg ótrúlega óforskammað og ófaglegt í alla staði og á sama tíma hafa formenn flokkanna ekki boðað einn einasta fund með stjórnarandstöðunni. Það er greinilegt að þeir sem hér eru við völd hafa algjörlega misst tökin á atburðarásinni. Ég held að það sé nauðsynlegt að formenn flokkanna ræði við þingmenn sína sem setja þingið í uppnám trekk í trekk, í staðinn fyrir að kenna stjórnarandstöðunni um að standa í vegi fyrir því níði sem á sér stað innan veggja Alþingis. Skömmin er ykkar sem berið ábyrgð á þessu ástandi.