144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er komið upp alvarlegt ástand á þinginu. Við verðum vitni að ég vil meina fullkomnu stjórnleysi. Við vörðum maímánuði í það að deila um þá fyrirætlun hv. þm. Jóns Gunnarssonar að troða nokkrum virkjunum inn í þingsályktunartillögu á milli umræðna á skjön við öll lagaákvæði um það hvernig á að taka svoleiðis ákvarðanir. Eigum við núna að fara að eyða júnímánuði í að reyna að stoppa þá fyrirætlun hv. þm. Höskulds Þórhallssonar að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum (Gripið fram í.) og fara þá inn í annað deilumál sem er nú líka svolítið heitt, sem er Reykjavíkurflugvöllur og hvar hann á að vera staðsettur? Það mál er í ákveðnu ferli. Ég ætla ekki að taka þátt í því að leyfa hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að taka einfaldlega ákvörðunarvaldið af Reykjavík í þessu risastóra máli. (Gripið fram í.) Hefur hæstv. forseti einhverja stjórn á þinginu? (Forseti hringir.) (HöskÞ: … efnislega umræðu.)