144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki að sökum að spyrja hvað fólk í stjórnarmeirihlutanum lætur sér detta í hug að gera hér á vettvangi þingsins. Eftir stórundarlega og forkastanlega afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar í morgun tel ég að forseti eigi að fara yfir það með þingflokksformönnum hvernig hægt verður að fresta hér þingi sem fyrst. Ég held að þetta sé orðið ágætt og legg til að áður en við lendum í enn meiri vanda með löggjafarsamkunduna verði fundin einhver snyrtileg leið til að fresta hér þingi. Svo þurfum við væntanlega að koma saman út af stöðugleikaskattinum, ef hann kemur þá fram eftir margboðaða framlagningu, en þetta getur ekki gengið svona. Ég tek undir orð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur sem talaði á undan mér; forseti ætti að kalla til formenn stjórnmálaflokkanna og reyna að finna snyrtilega lendingu fyrir Alþingi Íslendinga.