144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

aðgerðir í þágu bótaþega.

[10:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er orðin lenska hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þegar tilkynnt er um miklar aðgerðir sem koma mörgum til góða, að reyna að finna einhverja sem þær tilteknu aðgerðir taka ekki til og virðist þá vera ríkjandi skoðun hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar að það eigi aldrei að ráðast í neinar aðgerðir nema þær aðgerðir nái til allra á sama tíma. Hér er verið að grípa til aðgerða sem munu gagnast langflestum landsmönnum beint og öllum óbeint. Það er raunar ekki rétt sem hv. þingmaður heldur fram, að þeir sem eru með miðgildi launa fái bara 1 þús. kr. út úr þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið sem framlag stjórnvalda í kjarasamningum. Þvert á móti eru þetta fjölbreytilegar aðgerðir sem munu hafa víðtæk og mikil áhrif fyrir landsmenn alla, eins og ég segi, stærstan hluta þeirra beint og alla óbeint.

Það er hins vegar alveg ljóst að í þessum aðgerðum er ekki verið, frekar en öðrum aðgerðum stjórnvalda, að leysa öll mál samtímis. Það mun að sjálfsögðu áfram þurfa að ræða stöðu öryrkja, stöðu eldri borgara og ýmislegt annað sem þarf að leysa og bæta. Eins og hv. þingmaður sér þá kynnir ríkisstjórnin jafnt og þétt aðgerðir og lausnir sem ná til mjög stórra hópa og bæta stöðu þeirra. Þannig verður þetta áfram í tíð þessarar ríkisstjórnar svoleiðis að hv. þingmaður á að leyfa sér að gleðjast yfir því að hér er enn ein stóraðgerðin á ferð sem réttir stöðu mjög stórs hluta landsmanna beint og gagnast samfélaginu öllu óbeint.