144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um stöðuna á Landspítalanum og auðvitað víðar í heilbrigðiskerfinu. Ég held að við öll sem erum hér inni hljótum að hafa þungar áhyggjur af þeirri stöðu, nú þegar verkfallsaðgerðir BHM hafa staðið í allnokkurn tíma og síðan eru hafnar verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga. Mér telst til þegar ég skoða tölur að um 40% af starfsmönnum Landspítalans eins séu í einhvers konar verkfallsaðgerðum, þ.e. um 1.500 hjúkrunarfræðingar og hátt í 500 starfsmenn innan vébanda BHM. Þetta gerist á tíma þar sem við horfum fram á að það verður æ meiri þörf í framtíðinni fyrir heilbrigðisstarfsfólk af einföldum lýðfræðilegum ástæðum þ.e. það verður meira álag á heilbrigðiskerfinu og við erum þegar farin að finna fyrir því innan heilbrigðiskerfisins, þyngri eftirspurn eftir hjúkrun. Hverjar eru tölurnar? Jú, við horfum fram á að á næstu þremur árum komast um það bil 900 hjúkrunarfræðingar á þann aldur að geta hafið töku lífeyris, en við erum að útskrifa 450 hjúkrunarfræðinga. Við horfum því upp á það að hér gæti orðið verulegur skortur á starfsfólki innan heilbrigðisþjónustunnar. Það virðist vera allt í hnút, herra forseti, í þessari kjaradeilu sem snýst meðal annars, og nú tek ég fram að ég sit ekki við borðið en fylgist auðvitað með fréttum eins og aðrir hv. þingmenn, um kynbundinn launamun, en hjúkrunarfræðingar hafa bent á að verulegur munur sé á kvennastéttunum innan BHM og karlastéttunum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ástæðu til að fara út fyrir rammann, og ég minni á tillögu sem við í stjórnarandstöðunni lögðum fram þegar læknaverkfallið stóð yfir, og skipuð verði sáttanefnd með aðkomu deiluaðila og ríkissáttasemjara til að reyna að leysa málið. (Forseti hringir.) Mig langar líka að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) og vonast eftir (Forseti hringir.) neikvæðu svari, hvort hann telji mögulegt að setja lög á þetta verkfall.