144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[10:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann teldi hugsanlegt að það yrði skipuð sérstök sáttanefnd eins og við lögðum til í læknadeilunni og hann kaus að svara því ekki, en nefndi í fyrsta lagi í löngu máli að auðvitað væru lagaheimildir til að setja lög á verkfallsaðgerðir. Ég var að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, og hefði kannski mátt vera nákvæmari í orðalagi, hvort hann teldi það líklega aðgerð, því ótti minn í þessum efnum, herra forseti, er sá að lagasetning á verkfallsaðgerðir muni ekki gera annað en að ýta undir það sem hæstv. ráðherra kom að í sínu svari, þ.e. að heilbrigðisstarfsfólk menntað hér á landi, Íslendingar, flytji annað, því það er eftirspurn eftir þessu fólki alls staðar. Við þekkjum það bæði ég og hæstv. ráðherra að þetta er fólk sem hefur verið að fara annað af því að sjálfsögðu er vandinn hér ekki einsdæmi. Það sagði ég ekki heldur, hæstv. heilbrigðisráðherra, svo það sé sagt. Og að halda því fram að aðgerðir til að jafna launamun kynjanna kyndi bara undir ólgu á vinnumarkaði — á ég að skilja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sem svo að við eigum bara að gefast upp fyrir kynbundnum launamun af því það ýti undir ólgu á vinnumarkaði? Ég (Forseti hringir.) biðla til hæstv. ráðherra að koma hér og blása okkur einhverja von í brjóst því við höfum öll þungar (Forseti hringir.) áhyggjur. Ég óska eftir málefnalegum svörum.