144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[10:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess, svo ég svari þeirri spurningu sem ég komst ekki að í fyrri samskiptum okkar hv. þingmanns, að horfa út fyrir rammann ef viðræður skila okkur ekki neinu. Ég vil ekki með neinum hætti loka á einhverja tillögu til lausnar í þeim efnum að reyna að ná saman deiluaðilum. Ef einhvers konar útgáfa að sáttanefnd getur orðið til þess skal ég glaðastur manna ræða það, klárlega. Allt sem getur orðið til þess og horfir til þess að greiða úr þeirri deilu sem þarna stendur er til góða. Ég fagna því að stjórnarandstaðan og hv. þingmaður varpi fram ákveðinni hugmynd til umræðu, sjálfsagt mál að fara í gegnum það.

En ég vek athygli á því að sú staða sem þarna er uppi er þess eðlis að hún getur ekki gengið til lengdar. (Forseti hringir.) Með einhverjum hætti verðum við að leita leiða (Forseti hringir.) til þess að höggva á þann hnút sem þarna er, því (Forseti hringir.) svona getur þetta ekki gengið öllu lengur að mínu mati þó svo ég sé ekki tilbúinn til þess að nefna einhverja ákveðna dagsetningu.