144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

stefna í efnahagsmálum.

[10:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé erfiðara að stjórna efnahagsmálum á uppgangstímum en í kreppu. Ég held að stærstu mistök Íslendinga við stjórn efnahagsmála hafi verið gerð á góðæristímum og þetta lýtur að tímasetningu, að gera einhvern veginn allt gott í einu, skattalækkanir, launahækkanir, efla byggingariðnaðinn og þar fram eftir götunum, og að henda svo inn kannski virkjunum líka, vonandi ekki. Það leiðir einfaldlega til þess að við fáum ofþenslu, við fáum ásigkomulag þar sem við verðum aftur með ríkjandi viðskiptahalla, háa vexti, innstreymi á fjármagni og það kemur öllum illa, sérstaklega þeim sem sitja eftir í þessum aðgerðum eins og bent var á hér fyrr í dag. Það er ástæða til að hafa uppi varnaðarorð.

Ég sakna þess að ekki sé lögð meiri áhersla á langtímahugsunina. Við sjáum mjög innihaldsrýrar þjóðhagsspár, samráð á ýmis konar vettvangi hefur nánast verið lagt af. Við erum með lög um opinber fjármál í vinnslu. Hvernig samrýmist sú nálgun á ríkisfjármálin sem við höfum séð undanfarna daga ákvæðum þeirra laga? Þarf ekki að efla langtímahugsunina, (Forseti hringir.) samráðið, með það að augnamiði að fá fjölbreytni í atvinnulífinu, meiri arð af auðlindunum og meiri verðmætasköpun (Forseti hringir.) og aukna framleiðni í samfélaginu til þess að standa undir þessu öllu (Forseti hringir.)saman? Þetta þarf að vera sjálfbært.