144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum.

[10:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þann 21. maí síðastliðinn lokaði lögreglan í Feneyjum íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum, innsetningunni Moskan. Um er að ræða verk listamannsins Cristoph Büchel í Santa Maria Della Misericordia-kirkjunni í Feneyjum. Í tilkynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar kemur fram að borgaryfirvöld í Feneyjum hafi frá upphafi sýnt mikla tortryggni í garð framlags Íslands og reynt að leggja stein í götu þess frekar en að greiða fyrir því að það geti gengið áfallalaust.

Þá segir í tilkynningunni, með leyfi forseta:

„Síðustu mánuði hefur Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listamaðurinn og allt sýningarteymið unnið hörðum höndum að því að svara fyrirspurnum frá borgaryfirvöldum Feneyja, en í hvert sinn sem þeim hefur verið svarað hafa komið nýjar fyrirspurnir. Aðalágreiningsmál borgaryfirvalda og Kynningarmiðstöðvarinnar hefur falist í því hvort verkið sé listaverk eða ekki, þrátt fyrir að framlag íslenska skálans sé opinbert framlag Íslands á sýningunni.“

Haft er eftir Eiríki Þorlákssyni, formanni stjórnar Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, með leyfi forseta:

„Með lokun íslenska framlagsins í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni er jafnframt ljóst að Feneyjatvíæringurinn í myndlist, sem hefur verið einn helsti alþjóðlegi samfögnuður myndlistar um áratuga skeið, er ekki vettvangur frjálsrar listsköpunar, þar sem listamenn geta með list sinni vakið athygli á málefnum líðandi stundar. Listamenn sem valdir eru til þátttöku á Feneyjatvíæringnum virðast nú aðeins mega fjalla um viðfangsefni sem eru stjórnvöldum þóknanleg, eða sem að minnsta kosti eru talin hættulaus.“

Ég vil vegna þessa máls spyrja hæstv. utanríkisráðherra með hverjum hann og íslensk stjórnvöld standa í þessu máli, hvað hafi verið aðhafst af hálfu íslenskra stjórnvalda vegna lokunarinnar, hvort utanríkisþjónustan hafi komið listamanninum og aðstandendum sýningarinnar til aðstoðar með einhverjum hætti, hvort utanríkisþjónustan og íslensk stjórnvöld hafi á einhvern hátt leitast við að leiðrétta rangfærslur sem hafðar hafa verið í frammi um íslenska framlagið, og í síðasta lagi hvort íslensk stjórnvöld hafi beitt sér fyrir því að íslenskir listamenn sem koma fram fyrir hönd þjóðarinnar njóti grundvallarmannréttinda (Forseti hringir.) eins og þess tjáningarfrelsis sem nýtur verndar stjórnarskrár okkar.