144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum.

[10:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er eiginlega pínu orðlaus því að það kom mjög skýrt fram þegar ég bað um að eiga orðastað við ráðherrann um hvað málið ætti að vera og mér hefði því fundist tilefni til þess að ráðherra setti sig aðeins inn í málið, ef ég má lýsa vanþóknun minni á því að ráðherrann hafi ekki gert það.

Það er alveg ljóst að þarna er vegið að tjáningarfrelsi, ekki bara íslenskra listamanna á Ólympíuleikum listamanna í heiminum, heldur er líka vegið að tjáningarfrelsislöggjöf sem er til á Ítalíu. Helstu rökin fyrir því að loka moskunni hafa verið margvísleg. Ræðismaður Íslands í Feneyjum hefur svo sannarlega beitt sér gegn þessu máli, sem er til vansa og því hlýtur þetta að heyra undir utanríkisráðherra að því leytinu til. Ég vil benda ráðherranum á að það er mjög mikilvægt að standa með framlagi Íslands á svona stórri sýningu, sem telst til, eins og ég sagði áðan, Ólympíuleika listarinnar. Því vekur það furðu mína að ráðherra hafi ekki sett sig neitt inn í málið þó svo að aðstandendur sýningarinnar hafi ekki sett sig í samband við viðkomandi ráðherra. (Forseti hringir.) Reynt hefur verið að ræða við menntamálaráðherra og hann hefur algjörlega hunsað beiðnir listamanna og aðstandenda sýningarinnar.