144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

fjármögnun aðgerða vegna kjarasamninga og skýrsla um skuldaleiðréttingu.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Varðandi tryggingagjaldið þá lít ég þannig á að við séum að fresta lækkun þess. Ég tel enn, eftir sem áður, að mikilvægt sé að vinna að lækkun tryggingagjaldsins. Hins vegar játa ég það á sama tíma að ég hef spurt mig að því þegar atvinnurekendur hækka laun jafn mikið og raun ber vitni undanfarin ár og eru núna að semja um mjög miklar launahækkanir, hversu íþyngjandi þetta 0,5–1% er sem verið er að kalla eftir að tryggingagjaldið lækki um þegar menn geta á sama tíma hækkað launin um 6% eins og gert var í fyrra. Er þá vöntunin á 1% lækkun það sem er að kæfa þá? Eflaust kemur þetta mismunandi út fyrir einstök fyrirtæki og eflaust er þetta verst fyrir mannfrek lítil fyrirtæki.

Varðandi upplýsingarnar þá vil ég minna á að þegar skuldaaðgerðirnar voru kynntar þá voru mjög ítarlegar upplýsingar birtar, (Forseti hringir.) óvenju ítarlegar reyndar, um það hvernig (Forseti hringir.) þetta mundi dreifast fyrir einstakar tegundir heimila (Forseti hringir.) eftir fjölda og heimilisgerð. En frekari upplýsinga er að vænta.