144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan er búið að leggja af fundartíma fyrir þingnefndir þannig að þær eru í óðagoti að grautast í málum á morgnana án þess að nokkur viti hvernig forgangslisti ríkisstjórnarinnar lítur út. Við erum síðan með mál til umræðu í þinginu en það er ekki búið að tala um með hvaða hætti þingstörfum verði lokið á þessu vori. Starfsáætlun er úti, hún er búin, og við þær aðstæður þarf samþykki allra í þessum sal fyrir því hvernig haldið verður áfram. Það er algjörlega fráleitt að boða til kvöldfunda og sýnir ekki mikinn samtalsvilja af hálfu stjórnarmeirihlutans að efna til kvöldfunda við þessar aðstæður þegar menn hafa ekki séð sóma sinn í því að setjast niður og ræða framhald mála.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra loksins ákveðið að láta svo lítið að reyna að tala við aðra formenn flokka. Það mun gerast í dag og eigum við ekki bara að taka stöðuna eftir það?