144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og ég kom að áðan í ræðu minni finnst mér hálfgert upplausnarástand ríkja á þinginu. Það er engin starfsáætlun, það er ekki búið að setja niður neinn ramma, við vitum ekki hvenær eldhúsdagurinn er settur niður og nefndataflan er ekki í gangi. Það er fullkomin óvissa, þingmenn eru væntanlega að endurraða lífi sínu jafnóðum eftir því sem deginum vindur fram því að það er ekki hægt að gera neitt skipulag. Ef við ætlum að vera eitthvað áfram inn í sumarið, sem ég ítreka að ég hef ekkert á móti, er mjög mikilvægt að það sé gert með skipulegum hætti. Ég skil hreinlega ekki, af því að nú hefur verið ákveðið að boða til fundar um framhald þingstarfa, af hverju við stefnum hér í kvöldfund, af hverju við reynum ekki bara að halda einhverju málamyndaskipulagi og störfum samkvæmt hefðbundnum starfsreglum á meðan við reynum að setja niður einhvern ramma um það hvernig við ætlum að halda áfram.

Ég leggst gegn þessu, herra forseti.