144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ekkert vit í því að setja núna á lengdan þingfund þegar búið er að boða fund með formönnum flokkanna. Hér er verið að viðhalda ófriðarástandinu. Eigum við ekki að gera ráð fyrir að sá fundur skili einhverju? Eigum við ekki að gera ráð fyrir því að fólk sé að fara að setjast saman niður til að forgangsraða málum ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans hér? Eigum við að gera ráð fyrir því að áfram verði uppákomur eins og hjá hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni í morgun? Er það það sem við eigum að gera ráð fyrir eða vill ekki forseti reyna að sýna að minnsta kosti á þau spil að hann vænti þess að friður sé um næstu skrefin í stöðunni en ekki ófriðarástand og upplausn eins og staðan gefur til kynna?

Veruleikinn er sá að hér er ekkert í gangi, þ.e. starfsáætlun er úti og nefndataflan er úti. Það eru engin plön í lagi og það að leggja til að lengja þingfund í dag er algjörlega á skjön við það að vilja í raun og veru leysa stöðuna.