144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það rifjast upp fyrir mér mynd frá síðasta kjörtímabili þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir stóð í pontu og var að fjalla um einhver þingmál og hæstv. núverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð sat þar sem hv. þm. Árni Páll Árnason situr núna — það styttist í að hann taki aftur sæti þar — að þá hrópaði hann ítrekað fram í fyrir hæstv. forsætisráðherra: Það er engin starfsáætlun í gildi. Það voru ítrekuð frammíköll frá þáverandi hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni: Engin starfsáætlun í gildi.

Hvað er núna? Grafarþögn í sæti hæstv. forsætisráðherra. Engin starfsáætlun í gildi, þingið í fullkominni upplausn og við erum að fara að taka ákvörðun um að halda kvöldfund, búið að boða til fundar með formönnum en það er einhvern veginn eins og sá fundur hafi tapast. Er fyrir fram búið að ákveða að það verði enginn árangur af þeim fundi?

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)