144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stjórnleysið hérna er algjört. Forseti getur ekki sagt okkur neitt um þingfundi næstu daga. Forseti getur ekki sagt okkur neitt um nefndatöfluna, hvað er í gildi og hvað ekki, hvenær nefndir eiga að funda og hvenær ekki. Forseti getur ekki sagt okkur neitt um forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Hvernig er hægt að rökstyðja kvöldfund án þess að kvöldfundur eigi stoð í einhvers konar innihaldi um það hvert við erum að fara með Alþingi næstu daga og vikur? (VigH: Dagskráin liggur fyrir.) Það er algjörlega með ólíkindum að leggja þetta upp með þessum hætti, algjörlega órökstutt, og ég biðla til virðulegs forseta um að reyna að minnsta kosti að stilla hér umræðuna þannig af að við séum ekki að fara beinlínis í ófriði inn í þann fund formanna sem búið er að boða hér kl. 16 þannig að við séum ekki með stríðshanskann á gólfinu þegar sá fundur hefst. Það er mikilvægt að það liggi fyrir að það sé raunverulegur vilji forseta til að ná niðurstöðu í málið.