144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:24]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er ekki samvinna, hér er ekki verið að tala saman og það sem við erum að upplifa er kostnaðurinn við það. Það er skortur á samráði sem birtist með þessum hætti í þingsalnum, því miður. Þegar sambærileg staða var komin upp á fundi með forseta á fimmtudaginn tókst okkur einfaldlega að semja um hvernig við ættum að klára þingstörf þann daginn. Þá leit út fyrir að við mundum funda til kl. 20 og flestir voru sáttir við það. Fundi lauk kl. 18. Það er það sem menn fá út úr því að ræða saman.

Auðvitað er hægt að fagna því að sjá svo þéttskipaðan ráðherrabekk í dag til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um þetta. Þetta er eins og hverjir voru hvar í pólitískum vandræðagangi [Hlátur í þingsal.] en auðvitað eigum við bara að funda um þetta og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Við eigum ekki að vera að þessu.