144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að gagnrýna röðina hér vegna þess að það er augljóst af hverju atkvæðagreiðslan fer fram núna. Það er vegna þess að hæstv. forseti treystir sér ekki til að ná stjórnarmeirihlutanum í hús seinna í dag. (Gripið fram í.) Auðvitað væri eðlilegast að funda með stjórnendum og fara yfir það fyrst. Ef það fer allt í vitleysu og menn telja sig þurfa að beita meirihlutavaldi geta þeir kallað saman til atkvæðagreiðslu seinna í dag.

Eins og hér hefur komið fram höfum við líka verið í atkvæðagreiðslum í síðustu viku og menn hafa fylgst með afgreiðslu einstakra mála. Þrír til fjórar ráðherrar af þeim níu sem hafa atkvæðisrétt hafa verið við atkvæðagreiðslurnar. Það sem mér finnst þó athyglisverðast í þessari umræðu um atkvæðagreiðsluna er að nú er hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson búinn að finna sér fyrirmynd. Ég ætla að biðja hann um að nota þá fyrirmynd oftar, (Gripið fram í.) að Jóhanna Sigurðardóttir sé leiðtogi lífs hans varðandi stjórn í þinginu og í samfélaginu. Ég skal gefa honum góð ráð hvað það varðar. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Með sumarþing?) (Gripið fram í.)