144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að það væri gott ráð að láta þetta mál liggja. Varnaðarorð hafa borist frá embætti landlæknis og í þinginu hafa komið fram sjónarmið í þeirri umræðu sem fram hefur farið um málið mér sem hafa vakið spurningar í hugum margra um ágæti þessa máls. Það gengur út á það að samræma þær reglur sem gilda um auglýsingar í prentmiðlum annars vegar og sjónvarpi hins vegar. Menn vilja samræma þetta og leyfa auglýsingar í sjónvarpi en fyrir hvern er verið að samræma? Auglýsendur? Framleiðendur? Neytendur? Varla. Auglýsing í sjónvarpi er annað en auglýsing í prentmiðli. Þar koma menn fram ábendingum og varnaðarorðum (Gripið fram í.) sem er líklegra að þeir geri ekki í hughrifsauglýsingum í sjónvarpi. Það er eðlismunur á þessu tvennu. Þó að fjármálaráðherrann hlæi að þessu og finnist hallærislegt að vilja ekki leyfa lyfjaauglýsingar (Forseti hringir.) í sjónvarpi held ég að í samfélaginu almennt hafi menn áhyggjur af þessari þróun. Ég legg til að þetta mál verði látið liggja.