144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er ekkert út á það að setja að lausasölulyf séu auglýst í sjónvarpi, það er kannski ekkert eðlilegt að gera upp á milli miðla, en mér fannst í umræðunni ekki vera alveg skýrt hvort seljendum sé gert skylt að upplýsa um aukaverkanir lyfja. Mér finnst mjög mikilvægt að neytendur fái þær upplýsingar vegna þess að staðreyndin er sú að seljendur halda jákvæðum eiginleikum á lofti en segja minna um þá neikvæðu, ef nokkuð. Mér finnst það algjört grundvallaratriði og mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að hafa sérstaklega í huga að upplýsa almenning betur um aukaverkanir lyfja. Ef verið er að auglýsa lyf á að sjálfsögðu að telja upp þrjár til fimm algengustu og alvarlegustu aukaverkanirnar. Mér finnst það eðlilegt.

Ég ætla að sitja hjá eins og aðrir sem hafa komið í ræðustólinn en tek fram að það hefur ekkert með það að gera hvar er auglýst. Það eru upplýsingarnar til neytandans sem ég er að hugsa um.