144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[12:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er á ferðinni er ágætismál sem ég mun styðja, en engu að síður með breytingartillögu við 12. gr. málsins sem felur í sér að frá og með 2020, eftir fimm ár, verði óheimilt að kveikja í sinu. Það er bannað, en leyft með undanþágum. Það eru engin vísindaleg rök sem styðja þá heimild. Þeir vísindamenn og fræðimenn sem hafa komið á fund nefndarinnar sögðu okkur að það hefði ekkert aukið næringargildi fyrir gróðurinn, hann verður að vísu grænni fyrr, en þetta er klassískt mál þar sem reynir á rétt hinna mörgu gegn rétti hinna fáu vegna þess að það eru mjög fáir sem sækja um þessa undanþágu og gera þetta en þetta hefur áhrif á mjög marga. Verði breytingartillaga mín ekki samþykkt mun ég engu að síður styðja málið.