144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að styðja þetta mál þó að ég telji málið algjörlega óþarft. Þetta er eitt af þeim málum sem eru sett í gegnum þingið og taka tíma frá þingmönnum og ráðuneytinu. Það er vitað að sinubruni er ólöglegur eins og er og það þarf að sækja um leyfi. Ég tel það nóg. Ekki er nóg með að kveðið sé á um fortakslaust bann, heldur er jafnframt verið að refsivæða sinubruna hér á landi. Oftast er þetta þannig að ung börn eru að leik og það getur enginn gert við því þó að það kvikni í hér og þar. En hér er lagt til að refsing við því að kveikja sinueld sé allt að tvö ár.

Virðulegi forseti. Það er verið að beina refsingunni að röngum aðilum og ekki nóg með það heldur er verið að gera refsingu lítilfjörlega með því að refsivæða þetta atriði með þessum lögum. Ég læt mig hafa það að greiða atkvæði með þessu en vísa til þess að þetta er eitt af þessum óþarfamálum [Kliður í þingsal.] sem er verið að fara með í gegnum þingið. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður frammíkallara líka að stilla orðum sínum í hóf.)