144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi makrílfrumvarpið almennt er það auðvitað ekki beint til umræðu hér en það tengist þó því og eins í þeim lið sem hv. þingmaður spurði eftir með hvaða magni. Það er háð því að makríll verði kvótasettur þannig að 5,3% af þeim heimildum sem makríllinn er með séu þá fær til að fara inn í þessar aðgerðir. Annars er hann það ekki eins og þingmenn þekkja. Og 5,3% af 160 eða 165 þús. tonnum getur þingmaðurinn reiknað út að eru væntanlega 8.000–8.500 tonn.

Hvernig síðan á að færa það til þessara veiða á grunnslóð er lýst í a- og b-lið 8. liðar, eins og hv. þingmaður minntist á, þar sem fjallað er um að þær verði seldar á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum að stærð til veiða á grunnslóð og meðal annars eigi útgerð þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip gegn greiðslu gjalds allt að 20 lestum af makríl í senn. Þetta er sama aðferð og hefur verið notuð við síldveiði smábáta á Breiðafirði sem verður síðan opnuð líka. Þess vegna vitum við ekki hvert síldin kemur í framtíðinni.

Ástæðan fyrir því að ekki er hér ákveðið kílóverð er meðal annars sú að ekki er búið að klára frumvarpið um makríl og því ekki hægt að ákveða verðið í þessu hér fyrr en nokkurn veginn liggur fyrir hvernig menn ætla að enda makrílfrumvarpið. Það tengist nokkuð og það er núna í ferli hjá nefndinni.

Það er einnig talað um að 20% af þeim verði til ráðstöfunar gegn sama verði vegna umsókna sveitarstjórna til staðbundinna veiða. Það er verið að bregðast við því þegar makríll gengur skyndilega í miklu magni á grunnslóð á ákveðnum svæðum og til að geta komið til móts við það. En til að tryggja að þær heimildir sem ekki hafa gengið út 1. september 2015 verði nýttar (Forseti hringir.) verða þær síðan boðnar stærri skipum til kaups.