144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka það svar sem hæstv. ráðherra gefur hér, svo langt sem það nær. Hér segir hann að á meðan makrílfrumvarpið er ekki klárt sé ekki hægt að taka ákvörðun. Má þá segja að við verðum að afgreiða makrílfrumvarpið eða einhvern hluta af því áður en við getum klárað þessa þingsályktunartillögu? Annars vegar gagnvart aflaheimildum í makríl til smábáta sem hæstv. ráðherra talar um, 5,3% af 160 þús. tonnum eru í kringum 8 þús. tonn, en á þessum óformlega samráðsvettvangi sem við vorum í vorum við að tala um 15 þús. tonn sem kæmu til smábáta.

Ég ítreka spurningu mína vegna þess að hér eru settar inn ákveðnar leiðir sem eru kannski svolítið ólíkar því sem gengur og gerist, t.d. að heimildir þessar verða ekki færanlegar milli báta. Það er nýtt að mínu mati og má segja þarna að við séum ekki með framseljanlegt. En líka verða eftirhreyturnar 1. september boðnar öllum skipum til kaups í sambærilegu ferli. Þarna er í raun verið að stíga skref til uppboðs.

Í lokin ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvort ekki væri alveg einnar messu virði að skoða það með einhvern hluta af þessum aflaheimildum í makríl að setja þær á uppboð og sjá hvað út úr fengist. Mikið er talað um frjálst uppboð aflaheimilda og með þessu skapast að mínu mati mjög kærkomið tækifæri til að prófa þessa leið. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og spyr jafnframt líka: Er ekki alveg klárt að makríllinn verður ekki minna en 15 þús. tonn til smábáta?