144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi magn til smábáta fer það auðvitað eftir því hvernig menn afgreiða frumvarpið um makrílinn. Þar var lagt til að 5,3% færu til smábáta sem eru 8.000–8.500 tonn miðað við rúmlega 160 þús. tonna heildarafla. Þessi 5,3% sem þá kæmu til ríkisins við kvótasetninguna eru hugsuð til þess að þau gætu nýst við línu- og handfæraveiðar á grunnslóð. Tilgangurinn er auðvitað sá en ekki vitum við fyrir fram hvort makríll gangi á grunnslóð á hverjum tíma. Það er líka sett inn trygging og þá er hægt að nýta þær heimildir um heildarafla sem við gefum út. Það er auðvitað mikilvægt í samningum við önnur ríki að við stöndum að því að veiða allan þann afla sem við teljum eðlilegt að falli Íslandi í skaut.

Varðandi það hvort hægt sé að finna einhverja leið til að ákveða verð á makríl í þessum hluta höfum við haft núna um nokkurra ára skeið þá aðferð að festa í sessi ákveðna krónutölu verðandi síldina. Hún hefur verið um 16 kr. Það er spurning hvort það sé hægt að fara einhverja aðra leið til að finna það gjald varðandi makrílinn. Það er sjálfsagt að það verði rætt í nefndinni, en það er ekki lagt til í þessari þingsályktunartillögu.