144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýra og gagnyrta framsögu í þessu máli. Ég tek fram að ég hef ekki lesið málið, en mér fannst hann skýra meginatriði þess nokkuð vel. Hæstv. ráðherra veit að ég ber hag strandveiðiflotans mjög fyrir brjósti. Á sínum tíma var það mjög umdeilt að fara þá leið en ég tel að hún hafi sannað gildi sitt. Ég tel að strandveiðarnar skipti töluverðu máli fyrir hinar dreifðu strandbyggðir og að þar sé komin leið til þess að skapa atvinnu og færi fyrir menn að stunda sjó með ríkari hætti en þeir hugsanlega gátu áður. Ég tók eftir því að í framsögu sinni sagði hæstv. ráðherra að skel- og rækjubætur yrðu minnkaðar og mundu hverfa inn í sólarlagið á þremur árum. Hann sagði jafnframt að þeim hluta hygðist hann bæta við hinn hefðbundna byggðakvóta.

Ég spyr hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Er hann mér ekki sammála um að strandveiðarnar hafa reynst vel og heldur betur eftir því sem fram hefur undið tíma?

Í öðru lagi: Telur hann ekki koma til greina að nýta þær bætur sem falla niður vegna skeljar og rækju í jöfnum hlutföllum á milli strandveiðiflotans og hefðbundna byggðaflotans? Telur hann ekki að minnsta kosti einnar messu virði að skoða það?