144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að ég sé eins og hæstv. ráðherra svolítið rómantískur í nálgun minni gagnvart þessu atriði. Hæstv. ráðherra orðar það svo að líf hafi færst í hafnirnar. Sannarlega hefur færst líf í hafnirnar, en strandveiðiflotinn hefur líka skapað atvinnu sem skiptir máli bæði fyrir þá sem sækja sjóinn á þessum litlu bátum, en sömuleiðis fyrir þá sem vinna aflann í landi. Þetta hefur mælst ákaflega vel fyrir, held ég, hjá flestum. Í upphafi töldu menn að það mætti finna að meðferð aflans. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hafa menn gert reka að því að bæta það. Ég er ekki alveg viss um að strandveiðiflotinn sé honum fullkomlega sammála um að þessi tegund veiða sé ekki nægilega afgæf, en það kann vel að vera að skýrslur sýni annað þegar þær koma fram. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi eftir föngum að reyna að finna leiðir til að ýta undir þennan part af flotanum. Það er ekki bara af rómantískum hvötum sem ég geri það, ég tel að það skipti máli fyrir þessar byggðir.

Þess vegna tek ég svona að endingu líka undir það sem mér heyrðist hv. þm. Kristján L. Möller vera að tala um áðan. Þegar kemur að makríl er það mín skoðun að smábátarnir eigi að fá meira til sín af honum. Ég vildi bara koma þeirri skoðun minni á framfæri til að spara hæstv. ráðherra það að þurfa að hlusta á langar og kannski ekki mjög skemmtilegar ræður af minni hálfu um þau mál síðar í dag.