144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Loksins er komin fram tillaga til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamarks sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Eins og fjallað er um í þingsályktunartillögunni var ákveðið samráð í gangi þar sem ráðuneytið leitaði til fulltrúa allra flokka, sem voru fulltrúar úr atvinnuveganefnd, og áttu þeir nokkra fundi í ráðuneytinu um þessi mál. Hér er lögð áhersla á að ekki var um formlegan samráðsvettvang að ræða né formlegan starfshóp.

Um þetta vil ég segja að það er alveg hárrétt sem þarna er sett fram, en ég vil líka segja að mér finnst þetta samráð til eftirbreytni og fyrir fleiri ráðherra að fara eftir. Þarna settust menn niður og skiptust á skoðunum, þótt ekki væri þar með sagt að allir yrðu sammála um niðurstöðuna eða það sem kom fram. Rætt var við fulltrúa til að mynda frá Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssambandi línuveiðibáta, Sjómannasambandinu, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Samtökum smærri útgerða og stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og auk þess, eins og ég sagði áðan, við fulltrúa stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi.

Menn skiptust á skoðunum, lögðu gott til málanna. Að sumu leyti var tekið tillit til þeirra, kannski ekki allra. Ég ítreka að það er ekki þannig að menn stimpli þetta hér og nú. Mér finnst þetta hins vegar gott vinnulag.

Ég lét jákvæða punktinn koma fyrst fram en verð svo því miður að segja að það að málið skuli koma fram 1. júní er allt of seint. Nú þarf það að ganga til nefndar, nefndin þarf að kalla til gesti og fá umsagnir o.s.frv. og við vitum ekki hversu mikið er eftir af þinginu. Þetta er auðvitað gagnrýnivert. Það hefði verið hægt að leggja málið fram fyrr. Þarna er vitnað í skýrslu sem Vífill Karlsson hefur verið að taka saman, og er ágætisrit, en inn í hana vantar nokkra þætti, eins og til dæmis um afkomu strandveiðibáta o.fl. og ýmisleg fleiri atriði sem sá ágæti maður er að vinna frekar að og verður þá notað til. Í lögunum segir að eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti skuli leggja fram þingsályktun um þessa ráðstöfun og hún sé til sex ára. Það kemur hins vegar skýrt fram í þessu, vegna þessa verklags og vegna þess hversu seint málið er komið fram, í ljósi þeirra ákvæða að gera tillögur til ráðstöfunar heimilda næsta fiskveiðiárs eingöngu, að við þurfum að hafa í huga að þetta kemur aftur fram á næsta þingi og verður þá væntanlega gert til lengri tíma. Þetta er um það sem við köllum sérstök atvinnu-, félags- og Byggðastofnunarúrræði, sem ekki veitir af. Við sjáum af því sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar, sem er of lítið miðað við þörf byggðarlaga í vanda, að þetta skilar góðum árangri og það er það sem þarna kemur fram, því er úthlutað til nokkurra ára í senn.

Virðulegi forseti. Ég þreytist ekki á að segja frá því þegar við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar áttum fund með ágætisfyrirtæki í fundaferð okkar á Húsavík fyrir kannski ári síðan. Þar var okkur sýnt fram á að með svo og svo miklum kvóta frá Byggðastofnun, að mig minnir um 400 tonnum, var búið til plan um fiskvinnslu á Raufarhöfn, þeim ágæta stað sem hefur átt í vanda vegna þess að stór hluti af kvótanum, eða megnið af honum, er farinn í burtu. Þar var gerð áætlun, sem ég hef aldrei séð áður, um að ef þessi kvóti kæmi plús annað sem viðkomandi aðilar legðu fram væri búið að búa til vinnsluplan í fiskvinnslu fyrir 35–40 manns í 11 mánuði á ári, eðlilega er tekið sumarfrí og viðhaldshlé og annað slíkt en ég hef aldrei séð slíkt plan áður fyrir Raufarhöfn og þannig má gera fyrir fleiri staði.

Við getum nefnt Djúpavog sem lenti í miklum hremmingum eftir að Vísir í Grindavík ákvað að fara þaðan með allt sitt hafurtask. Þar voru miklir erfiðleikar í framhaldi af því og 400 tonn inn í þau 4.000 tonn sem voru að fara er auðvitað ekki neitt neitt, en þarna er möguleiki á að breyta því.

Ég gerði að umtalsefni 8. lið um aflaheimildir í makríl sem geta orðið allt að 15 þúsund tonn. Talað um að hann verði seldur á ákveðnu kílóverði. Ég vil segja að ég er efins um að Alþingi geti framselt þetta vald svona til ráðuneytisins. Ég held að þarna þurfi að setja inn á hvað á að selja þetta, í krónum á kíló, eins og gert er með síldina. Það hefur komið fram að Alþingi getur ekki framselt ákvörðunarvald á þennan hátt og þess vegna held ég að finna eigi tölu á vettvangi nefndarinnar.

Ég gerði jafnframt að umtalsefni það sem eftir er af makrílkvóta 1. september. Þá er hann boðinn öllum skipum til kaups í sambærilegu ferli og ráðherra falið að setja reglugerð um hvernig að því verður staðið. Ég ítreka það sem ég sagði í andsvari. Ég held að þetta sé kærkomin leið til að taka ákveðinn hundraðshluta af kvóta og prufa uppboðsleiðina. Með því er ég að segja að greiðslur á kvótagjaldinu falli niður og kemur þá auðvitað fram í útboðsupphæðinni sem þarna verður.

Virðulegi forseti. Í tíu mínútna ræðu um þetta stóra mál er ekki hægt að dvelja lengi við hvern lið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði viljað sjá, eins og hefur komið fram hjá fleirum, að kvótinn í strandveiðunum yrði aukin og ég er hugsi yfir því. Af hverju notum við ekki tækifærið þegar það er gott ástand í hafinu og útlit fyrir að kvóti verði aukinn mikið? Af hverju tökum við ekki ákveðinn hundraðshluta og sendum meira þarna inn? Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að þetta ásamt því að leggja á hófleg veiðigjöld og ýmislegt fleira á að vera liður í frekari sátt um sjávarútveginn, sem við erum alltaf að leita að á Alþingi og verður einhvern tíma að nást vegna þess að við getum ekki haft þessa höfuðatvinnugrein þannig að í raun og veru sé aðeins rekstrarskilyrði til eins árs í senn, eins og það er í dag.

Skel- og rækjubætur eru færðar niður um 600 tonn og ráðherra sagði að þær mundu detta alveg út á þremur árum. Það var alveg skýrt í byrjun að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða og það var ákveðið í upphafi að upphaflegur tími og tímalengdir væru fallnar úr gildi en síðan hefur þetta verið framleitt árlega. Þarna eru tekin 600 tonn og færð yfir í byggðapottinn, sem er sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar.

Jafnframt er byggðapotturinn sem slíkur, sá hefðbundni, lækkaður um að mér sýnist 698 tonn, þannig að úr því kemur lækkun upp á 1.298 tonn sem er ráðstafað annars staðar, svo 1.198 tonnum í sérstakan byggðakvóta Byggðastofnunar til að bregðast við vanda smærri byggðarlaga, eins og ég hef getið um. Ég nefni til dæmis Grímsey í því sambandi. Þar er verið að vinna að lausn á þeim mikla vanda sem er þar vegna of mikillar skuldsetningar nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja. Grímsey hlýtur að koma til álita hjá Byggðastofnun, að setja inn einhver hundruð tonna til Grímseyjar sem lið í þeirri endurreisn, til að viðhalda þeirri byggð. 100 tonnum er svo varið í frístundaveiðarnar en áframeldi á þorski er tekið niður um þau 500 tonn sem voru þar einhvern tíma og það kemur auðvitað til út af því að upplýsingar eru komnar fram um að þetta gangi ekki og að fyrirtæki sem voru í þessu séu að fara út úr því. Einnig hefur komið fram, sem er dapurlegt, að þetta var misnotað þannig að það var ekki smáfiskur sem var tekinn og settur í kvíar og gefið heldur eru upplýsingar um að stór fiskur hafi verið settur þar í og jafnvel tekinn daginn eftir. Það er ekki áframeldi á þorski að mínu mati ef þetta er eingöngu gert til að ná í pottinn sem þarna var. Það eru óljósar upplýsingar sem komu fram um þetta mál.

Í lokin er talað um hvað á að gera við peningana sem fást fyrir sölu á þessum heimildum og talað er um að þeir renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Ég er hlynntur því að þetta sé tekið frá og til dæmis sett í sóknaráætlun landshluta, en ég velti fyrir mér hvort Alþingi þurfi ekki að koma að því og einnig er ég hugsi yfir því, vegna þess að þetta er þingsályktunartillaga, að ekkert mat hefur verið lagt á það (Forseti hringir.) hvaða upphæð gæti verið um að ræða.

Þetta eru mín fyrstu orð á þeim 10 mínútum (Forseti hringir.) sem okkur er ætlað til að ræða um þingsályktunina. Eins og fram hefur komið sit ég í atvinnuveganefnd og þar verða menn að bretta upp ermar og vinna þetta frumvarp vegna þess hversu seint það er fram komið. Það er það sem ég gagnrýni hvað harðast í þessu máli.