144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég væri mjög hlynnt því að sú væntanlega aukning sem við sjáum fram á í þorski skilaði sér í hlutfalli í strandveiðipottinn. Mig minnir að í því frumvarpi sem var á síðasta kjörtímabili til umræðu hér í lokin hafi verið ákveðið að nokkur prósent færu alltaf í aukningu sjálfkrafa inn í strandveiðar. Ég held að það væri mjög gott að tengja það þannig aukningu, að það yrði sjálfkrafa aukning inn í strandveiðihlutann.

Eins og hv. þingmaður nefndi hafa strandveiðarnar skipt mjög miklu máli. Sveitarfélög eins og Ísafjarðarbær og Vesturbyggð hafa fundið það á sínu atvinnusvæði hve miklu þetta hefur skipt, bæði fyrir hafnirnar og að fækka á atvinnuleysisskrá og möguleikum manna á að skapa sér vinnu á móti annarri vinnu hluta úr ári. Auðvitað eru margir líka með kvótalitla báta sem eru þá að róa yfir veturinn en geta farið á strandveiðar á sumrin, þetta sameinast því vissulega þannig.

En ég hefði viljað stokka þetta enn meira upp. Mér finnst að þessi hefðbundni byggðakvóti sé orðinn barn síns tíma. Hann hefur farið finnst mér allt of oft í hendur þeirra sem þurfa í rauninni ekkert á honum að halda og hefur ekki nýst sem skyldi, en styrkja eigi þetta sérstaka aflamark Byggðastofnunar, það hefur reynst vel, en mér finnst að reyna eigi að koma þessum byggðakvóta í öflugan leigupott ríkisins sem færi vaxandi til að auka möguleika á nýliðun greininni og það væri mikil styrking fyrir umræddar byggðir og sem mundi beinast frekar í rétta farveginn.