144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er mér miklu framar að því er varðar skilning á gildi þessara veiða fyrir lítil byggðarlög. Hún kemur sjálf frá einu slíku og getur því trútt um talað. Mér finnst það merkilegt og fagna því að tilfinning hennar fyrir nytsemd hins almenna kvóta er mjög svipuð og mín. Ég hef í gegnum árin heldur orðið krítískari á hann og hef bent á að hann hefur í mörgum tilvikum ekki nýst með þeim hætti sem menn ætluðu.

Ég skal viðurkenna það líka að ég var ekki viss um að þessi sérstaka aflahlutdeild sem færð var til Byggðastofnunar mundi ganga upp eða þjóna tilgangi sínum betur en hinn almenni kvóti, en reynslan á stuttum tíma er sú að það hefur gerst. Mér finnst að við eigum að taka mið af þeirri reynslu og við eigum hugsanlega að velta fyrir okkur að auka þá hlutdeild sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar með þessum hætti. Við þekkjum það öll sem höfum fylgst með sjávarútvegi lengi að á kvótakerfinu, hvað sem mönnum finnst um það, eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Skuggahliðin er auðvitað sú sem við höfum séð til dæmis birtast í kjördæmi hv. þingmanns aftur og aftur, þar sem kvóti hefur flust með eigendunum í burtu og skilið eftir sviðna jörð, skilið eftir byggðarlag í rúst, og mér hefur ekki fundist sem hinn almenni kvóti hafi með nokkru móti getað tekið rækilega, alla vega ekki nægilega á slíkum kringumstæðum sem upp koma. Ég held því að við séum sammála um þetta.

En hitt er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að skoða ber þá leið að nýta tækifærin sem kunna að vera fram undan núna með stækkandi stofni til að búa til almennilegan leigupott sem hægt væri að sækja í og auka þannig nýliðun og tök manna á því að sækja sjó. Það er eitt af því sem við höfum bæði barist fyrir.