144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[13:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Eins og ég tók fram áðan þá var þetta kannski ósanngjörn spurning því að þetta er ekki aðgengileg löggjöf og það er ansi mikið af reglugerðum og millivísunum í önnur lög um enn smásmugulegri útfærslu varðandi þessi mál.

Ég er ánægð að heyra þetta með sóknaráætlanirnar því að ég er mjög hlynnt byggðastefnu og byggðaaðgerðum. En ég er andsnúin byggðaaðgerðum sem felast í ívilnunum til einstakra fyrirtækja eða einstaklinga sem ráðherra hefur sjálfdæmi til að taka ákvörðun um.

Ég held að sóknaráætlanirnar séu hin raunverulega leið til jákvæðrar byggðaþróunar þar sem sveitarfélögin og íbúarnir á svæðinu taka sameiginlegar ákvarðanir um það sem brýnast sé á hverju svæði til að efla það til framtíðar. Ég vona að þetta verði skoðað sérstaklega í atvinnuveganefnd.

Síðan ætla ég bara að óska eftir því við þingmanninn, og þarf engin sérstök svör um það, að atvinnuveganefnd reyni líka að slá tölu á það fyrir okkur þingmenn hvaða tekjur við erum að tala um fyrir ríkissjóð af þessum úthlutunum.