144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

fundur forseta með formönnum þingflokka.

[15:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það kom fram í morgun að fyrirhugaður væri fundur með formönnum flokkanna kl. 16 í dag. Ég vil rétt eins og aðrir sem um það hafa fjallað þakka fyrir atbeina forseta sem hefur leitt til þeirrar niðurstöðu.

Mig langar til að biðja forseta að tryggja að gert verði hlé á þingfundi meðan á fundi formanna flokkanna stendur. Ég óska jafnframt eftir stuttum fundi fyrir þingflokka eftir það. Hann þarf ekki að vera langur en við þurfum að fá ráðrúm til að taka stöðuna að afloknum formannafundi til að vita hvernig næstu skref eiga að vera í þinghaldinu og hvort fundurinn hafi skilað einhverju.

Loks vil ég árétta það sem áður hefur komið fram hér í umræðunni. Við höfum sýnt því skilning að sjávarútvegsráðherra er farinn af landi brott en hér erum við að ræða mál sem hann mælti fyrir og ég óska eindregið eftir því að sá ráðherra sem fer með málaflokkinn á meðan sjávarútvegsráðherra er fjarri sitji umræðuna. Ég bið forseta að gera gangskör að því.