144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:10]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að tilkynna þingheimi, ef það hefur farið fram hjá einhverjum, að ég er tengdur sjávarútveginum bæði í aflamarks- og krókaaflamarkskerfinu og synir mínir ásamt eiginkonu eiga strandveiðibát.

Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að ég hefði viljað sjá þetta mál koma fyrr þannig að það hefði getað hlotið hér ítarlegri og meiri meðferð. En hinu ber að fagna að það samtal sem átti sér stað í þeim vinnuhóp þar sem tilnefndir voru fulltrúar úr öllum flokkum var málefnalegt. Það mætti hafa þennan háttinn á í fleiri málum. Auðvitað voru það ákveðin vonbrigði að píratar skyldu ekki telja ástæðu til að taka þátt í þeirri vinnu.

Hópurinn hafði til grundvallar skýrslu Vífils Karlssonar um mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar þar sem frumathugun gefur sterklega til kynna að þessi tilhögun hafi meiri byggðafestuáhrif en hefðbundinn byggðakvóti þar sem báðum úrræðum hefur verið beitt. Þetta er í takt við þá tilfinningu sem ég hef og það sem ég heyri úti í samfélaginu (Gripið fram í: Og hér í þessum sal.) og hér í þessum sal og víðar.

Það var nánast samdóma álit í umræðunni um ráðstafanirnar að vonir eru bundnar við aflamark Byggðastofnunar. Ég vitna í tillöguna, með leyfi forseta:

„… meiri jákvæðni er til þess verkefnis og þeirrar langtímahugsunar sem í því felst. Nokkur gagnrýni var aftur á móti á almenna byggðakvótann. Það er ljóst að fleiri sjávarbyggðir eiga undir högg að sækja og mikilvægt að auka við þetta úrræði sem mótvægisaðgerð. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um einstök atriði og þær breytingar sem gerðar eru frá yfirstandandi fiskveiðiári eru litlar.“

Við byrjum á strandveiðunum. Það segir reyndar í ritinu Hagur veiða og vinnslu að arðsemi af veiðunum sjálfum sé neikvæð og því sé sérstaklega mikilvægt að horfa til úttektar á atvinnu- og byggðaáhrifum strandveiða í þeirri úttekt og þeirri vinnu. Ég fagna þeirri sátt sem er í rauninni um strandveiðarnar og heyri ekki annað en að mikil sátt sé um þær. Eftir að menn gerðu sér grein fyrir því að strandveiðarnar væru komnar til að vera og ekki átti að fara að úthluta eftir einhverri reynslu þá minnkaði stressið og panikkið sem var í upphafi þegar menn héldu að þeir væru að vinna sér inn einhverjar aflaheimildir. Strandveiðarnar eru því komnar til að vera. Það er ekki gerð tillaga um breytingu á þeim núna. Í töflu sem fylgir fóru 28,92% á strandveiðar fiskveiðiárið 2012/2013, þá er ég að miða við þennan pott, 30,22% fóru fiskveiðiárið 2013/2014 og 31,85% fiskveiðiárið 2014/2015. Það hefur því verið hlutfallsleg aukning. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir sömu prósentutölu sem þýðir þá 8.600 tonn upp úr sjó en ef við gerum ráð fyrir aukningu, sem allt bendir nú til, vonandi verður hún sem mest, þá mun hún skila sér í strandveiðum eins og öðrum veiðum.

Ef við förum svo í skel- og rækjubætur þá er gert ráð fyrir að þær verði skertar og afnumdar á næstu þremur árum. Varðandi skel- og rækjubæturnar verð ég að segja að í vinnu hópsins komu ekki fram og við fengum ekki upplýsingar um tilurð þessara bóta. Þetta eru tiltölulega fá fyrirtæki og þröngt svæði þar sem þessi skerðing verður þannig að ég skora á þessa aðila að leggja fram gögn. Ef það er tilfellið að þeir hafi þurft að láta 30% af þorski á móti þessum heimildum og að aðeins frá Stykkishólmi hafi farið 2 þúsund tonn af þorski á móti þá verð ég að segja að nefndin verði að skoða þetta aðeins betur. Hvaða sanngirni er í því? Það jákvæða við skelveiðarnar er að margt bendir til þess að þær muni glæðast á næstu árum.

Í lið nr. 3 er byggðakvótinn, þessi almenni. Gert er ráð fyrir því í þessum tillögum að hann lækki. Það er í takt við þessa skýrslu þótt hún sé aðeins á frumstigi, hún styður það sem maður heyrir, að það sé markvissara til að efla byggð í landinu. Í rauninni er grunnmunurinn á almenna byggðakvótanum og hinum sérstaka byggðakvóta frá Byggðastofnun sá að sérstaki byggðakvótinn til Byggðastofnunar úthlutast á fiskvinnslur en hinn kvótinn úthlutast á skip. Oft og tíðum er sá kvóti ekki unninn á staðnum en byggðastofnunarkvótinn — þar eru samningar við fiskvinnslur til lengri tíma, frá þremur og upp í sex ár minnir mig að megi semja um. Það eru þá bæði vinnslan og veiðarnar sem skila sér til þeirra samfélaga.

Línuívilnunin er dálítið umdeild. Það eru kostir og gallar við línuívilnun. Í hópnum heyrðust þær raddir og menn voru á því að það þyrfti að tengja línuívilnun einhvern veginn við byggðirnar ef hún ætti að vera byggðaaðgerð. Meginþemað var hvernig væri hægt að tengja línuívilnun við byggðirnar. Það var ákveðið að leggja ekki til breytingar á henni núna heldur bíða ítarlegri gagna um hverju hver flokkur skilar til byggðamála.

Frístundaveiðarnar verða 300 tonn eins og þær voru í hittiðfyrra. Þær voru færðar niður í 200 tonn á þeim forsendum að þær voru ekki nýttar en það bendir allt til að þær verði nýttar núna þannig að þær fara aftur upp í 300 tonn.

Áframeldi á þorski er tekið af. Það er einfaldlega vegna þess að það þótti ljóst að þróun í fiskeldi er ekki til áframeldis á þorski og kynbætur hafa ekki orðið að veruleika þannig að aleldi sé fram undan. Mönnum þótti ekki ástæða til að úthluta í það.

Makríllinn. Það er reynd ný leið í makrílveiðum. Það er alveg tvöföldun á þeim potti sem er áætlaður til smábáta í dag og verður honum að hluta til úthlutað á einhverjum byggðalegum forsendum.

Liður nr. 9 eru aflaheimildir í síld. Það eru 800 tonn sem er ráðstafað til smábáta undir 300 tonnum. Ég vil benda mönnum á, þótt það hafi ekki verið gert núna, og ég geri athugasemd við það að krókaaflamarksbátar mega ekki veiða síld í lagnet eins og aldagömul hefð er fyrir. (Forseti hringir.) Krókaaflamarksbátar mega veiða grásleppu í net. Ég get ekki séð að það sé neitt því til fyrirstöðu að krókaaflamarksbátar veiði síld í lagnet eins og (Forseti hringir.) hefð er fyrir.