144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:23]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er gott að heyra það og ég held að flestir séu sammála því að það er líklegra að úthluta til fiskvinnslu en til skipa. Ég hef stundum nefnt það að kannski væri bara sniðugt að lita þetta upp í ákveðin svæði svipað og við gerðum í ljósleiðaramálinu, að við getum verið með markaðsheft svæði og markaðssvæði. Ég hefði getað ímyndað mér að við mundum lita til dæmis Strandirnar og mjög afskekkta staði, þar sem ekki er í raun hægt að fara fram á að fiskur sé unninn — á slíkum svæðum fengju staðir úthlutað byggðakvóta án veiðiskyldu en á stærri stöðum, þar sem grundvöllur er fyrir fiskvinnslu, væri þetta nýja kerfi þar sem það væri skylda að vinna aflann á staðnum.

Varðandi það hvort við eigum að gera þetta með allan afla þá er það allt í lagi en við getum ekki bæði farið fram á hæstu veiðigjöld — ef við ætlum að fá sem mestan arð út úr auðlindinni þá þurfum við að gefa fyrirtækjum kost á því að hagræða hjá sér og vinna þetta í nútímahátæknifrystihúsum, sem gefa mestan arðinn, og veiða þetta á sem hagkvæmastan hátt, nýta fjárfestingarnar sem best. Ég get alveg séð fyrir mér að við séum með 90% af veiðiheimildunum í því á meðan við erum með um það bil 5–10% í einhverjum byggðaaðgerðum.