144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að leggja til að allar veiðiheimildirnar yrðu teknar með þessum hætti. Það gleður mig hins vegar að hv. þingmaður, sem er talsmaður Framsóknarflokksins í sjávarútvegi, virðist alla vega vera til viðtals um að nánast tvöfalda það sem fer í byggðaaðgerðir. Mér heyrist það á þessum allra síðustu orðum hans hér áðan og það er vel.

En það er tvennt annað sem ég vildi gjarnan ræða við hv. þingmann. Ég hef margoft tekið þátt í því að spyrna fótum gegn viðleitni manna til að afnema línuívilnunina. Það var hér sérstaklega á árum fyrri, það voru stöðugar atlögur að línuívilnuninni. Slíkt er ekki í gangi núna en hv. þingmaður velti því upp að kannski væri með einhverjum hætti betra að tengja þau hlunnindi, þær ívilnanir, frekar við byggðirnar; og hvernig vill hann gera það og af hverju? Hefur ekki akkúrat línuívilnunin verið talin partur af þeim „byggðaaðgerðum“ sem hafa heppnast hvað best?

Ég tek undir þær efasemdir sem komu fram í máli hv. þingmanns varðandi rækju- og skelbætur. Mér fannst dálítið merkilegt að hlusta á hv. þingmann, sem sat í þessum samráðshópi sem fór rækilega yfir þessi mál. Hann upplýsir það hér að hann hafi ekki með nokkru móti getað tosað fram í þeirri vinnu nokkrum gögnum sem réttlættu það að verið sé að halda áfram þessum kvótum. Ég spyr hv. þingmann: Þetta er töluvert mikið sem þarna er veitt og vissulega er það svo að það er verið að taka af 600 tonn, ef ég man rétt, og gert er ráð fyrir sólarlagi eftir þrjú ár. En hvers vegna ekki að stíga skrefið til fulls og gera það núna allt saman og nota það sem eftir er með öðrum og miklu skynsamlegri hætti? Er hann mér ekki sammála um það? Mér heyrist hv. þingmaður hafa heilbrigðar efasemdir um þetta eins og ég hef margoft viðrað hér.