144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna um þingsályktunartillögu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem lögð er til áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamarks sem dregið er frá heildarafla, samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, en samkvæmt lögunum skal ráðstafa 5,3% af leyfilegum heildarafla til sérstakra atvinnu-, félags- og byggðaráðstafana.

Mig langar í fyrra andsvari að staldra við meginmarkmiðin. Þar segir að ráðherra beri að ákvarða hvernig þessum aflaheimildum verði ráðstafað með það að markmiði að hámarka atvinnu-, félags- og byggðaáhrif af ráðstöfun heimildanna. Ef við skoðum þetta sérstaklega út frá markmiðinu, spyr ég hvort hv. þingmaður meti það svo út frá heildarpottinum sem er 5,3% — hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hann mætti vera 8–10% — að það sé nægjanlegt og nálægt því að uppfylla þær kröfur sem má lesa út úr meginmarkmiðunum. Í því samhengi má velta því fyrir sér hvort ráðstöfunin mætti vera með öðrum hætti.

Þá spyr ég að því — í samhengi við skoðun hv. þingmanns, út frá tilgangi og markmiðum sem hv. þingmaður kom vel inn á í ræðu sinni, þ.e. að réttlæta mætti auknar strandveiðar — hvort hann sjái fyrir sér breytt hlutföll í ráðstöfuninni, annars vegar út frá meginmarkmiðum um 5,3%, og hvað það mætti vera, og svo breytingar á ráðstöfuninni.