144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mér fannst heildarstefnumiðið í þessari ályktun mjög jákvætt. Við erum sammála um að auka svigrúm Byggðastofnunar í þessu samhengi og 5,3% er þá ágætisviðmið. En hv. þingmaður kom með athyglisverðan punkt í upphafi ræðu þar sem hann benti á handvömm milli greinargerðar og tillögunnar sjálfrar. Það tengist þeim rannsóknum sem við erum að bíða eftir, og kemur fram í greinargerð, á nánari útfærslu ráðstafana á kvóta. Mig langar því að biðja hv. þingmann að gefa álit sitt á slíkri úttekt og þeirri ákvörðun sem hér er tekin, samkvæmt greinargerð, og greint frá, að bíða þeirrar úttektar og greiningar áhrifa áður en frekari ákvarðanir eru festar til lengri tíma litið, en svo er í upphafi tillögunnar talað um sex ár. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Er skynsamlega að farið, samkvæmt greinargerðinni, ef við höldum okkur við hana, að taka þetta bara eitt ár í senn meðan við bíðum þessarar tillögu?

Þá langar mig jafnframt að spyrja hv. þingmann, og þá í tengslum við hans miklu þingreynslu og reynslu sem ráðherra atvinnumála, um þann samráðsvettvang sem skapaður var og má lesa um í ályktuninni að sé reyndar ekki formlegur heldur til þess að kalla fram sjónarmið. Það hefur komið fram í máli (Forseti hringir.) hv. þingmanna að það hafi gagnast mjög vel. Ég bið hv. þingmann að gefa álit sitt á því hvort þetta er ekki til fyrirmyndar (Forseti hringir.) og hvort þetta er ekki æskilegt fyrirkomulag.