144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta allt eiginlega orðið hálfhallærislegt ef ég á að segja alveg eins og er. Það að menn skuli á þessum tíma leyfa sér að fara í einhvern leik með því að mæta með lista með öllum málum, meira að segja lista þar sem eru ókomin mál, mál sem ekki eru einu sinni komin inn í þingið, sem ekki eru komin til 1. umr. og eru með rammann þarna inni líka, segir mér bara að þeir tóku þennan fund ekki alvarlega. Menn ætluðu sér ekki að ná neinum árangri eða niðurstöðu á þessum fundi. Þarna er auðvitað líka verið að veifa framan í okkur einhverju sem ekki getur orðið neinn grundvöllur sátta eða samkomulags á meðan menn hafa til dæmis enn þá rammaáætlun á listanum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að gerð verði önnur atlaga að þessu og forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna verði gert að koma með alvöruforgangsmálalista þannig að við getum betur áttað okkur á því (Forseti hringir.) hvað það er sem við þurfum að ná saman um og undirbúið okkur undir það. (Forseti hringir.) Ég legg til að á meðan verði gert hlé á þessum þingfundi. Það er undarlegt og ekki til neins að ræða hér um einhver mál meðan þetta er óleyst.