144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég velti því upp hvort hæstv. forseti hafi vitað það fyrir fram að til stæði að halda einhvern grínfund. Vissi hæstv. forseti að það stæði til að forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna kæmu með lista þar sem efst stæði: Forgangsmál, og á listanum væru 70 mál, öll mál ríkisstjórnarinnar? Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst að forseti þurfi líka að gæta að virðingu sinni og virðingu þingsins. Stendur til að halda því fram að þetta sé tækt fundarefni? Þarf ekki virðulegur forseti að setjast niður með forsvarsmönnum ríkisstjórnarflokkanna og segja sem svo: Það er lágmark að við séum með fundarefni sem er þess vert að ræða það. Þetta er algerlega fyrir neðan allar hellur.

En á þessum lista vakti áhuga minn forgangsmál ríkisstjórnarinnar, samkvæmt nýjustu fréttum: brennivín í búðir. Ég legg til, virðulegi forseti, ef menn ætla að halda þessu gríni áfram, að setja það þá bara fyrst á dagskrá, það er mikilvægasta málið sem þarf að ræða, brennivín í búðir, (Forseti hringir.) það er forgangsmál ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem eru þar í forustu.