144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er til nokkurrar einföldunar að forseti hefur gert grein fyrir því að síðasta blaðsíðan í þessari forgangsmálaskrá eigi ekki heima þar og hafi ekki verið forgangsmál af hálfu ríkisstjórnarinnar, brennivín í búðir og hvað það var af málum. Þá er hægt að henda þeirri síðu og horfa á hinar síðurnar. En það er nú eins og hér hefur fram komið býsna sérstakt og lýsir því auðvitað hvernig ástatt er um stjórn landsins að ríkisstjórn Íslands skuli ekki vita í júní hvernig hún ætlar að ljúka þingi sem átti að enda í maí síðastliðnum. Og dapurlegt að við skulum ekki sjá hér forgangsmálalista.

Ég vil óska eftir því við virðulegan forseta vegna þess að Íþróttasamband Íslands hefur boðið þingmönnum til þess að vera við opnunarhátíð smáþjóðaleikanna klukkan 19.30, að ganga úr skugga um að okkur verði gefið tækifæri til þess að sinna því boði og þeim þingmönnum sem það hafa þekkst og (Forseti hringir.) hér verði gert stundarhlé vegna þess alþjóðlega viðburðar.