144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það er mjög óþægilegt að vinna núna þegar allt er í ruglingi. Það eru nefndafundir hægri vinstri. Við í fjárlaganefnd erum til dæmis að vinna mál um opinber fjármál. Hvað gengur það út á? Jú, að ná agaðri og vandaðri vinnubrögðum með því að horfa fram í tímann, plana, vita hvert við stefnum til að útkoman verði betri. Á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra leggur málið fram og talar fyrir því, það sé svo mikilvægt að auka aga og sýna ábyrgð, hvað gerir hann svo sem annar stjórnarherranna? Er ekki að sama skapi mikilvægt að við í þinginu vitum hvert við stefnum og hvað við erum að gera og til hvers við erum að mæta á fundi og hvaða mál liggja fyrir og hvað maður er að gera á fimmtudaginn klukkan þrjú og þar fram eftir götunum? Þetta er ekki í lagi. Ég lýsi vonbrigðum mínum með sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra sem ég hélt að hefði meira bein í nefinu og mundi þá geta tekið málin í sínar hendur ef það er hæstv. forsætisráðherra sem er að þvælast fyrir. Ég vil (Forseti hringir.) biðla til hæstv. forseta að taka málin í sínar hendur (Forseti hringir.) og útbúa þennan margumtalaða lista sem við viljum fá að sjá.