144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Svo ég leggi nú mitt lóð á vogarskálarnar til að útskýra hvaða listar voru í gangi þarna þá skil ég þetta þannig að annars vegar var svokallaður forgangslisti sem innihélt bara öll mál sem ríkisstjórnin er með í þinginu og jafnvel mál sem eiga eftir að koma, mér taldist svo til að það væru um 70 mál. Hins vegar er listi yfir þingmál, mörg ágæt, sem eru þó komin úr nefndum og eru á vegum þingmanna og sum þeirra eru fín, en hann hafði ekki fyrirsögnina forgangsmál.

Sko. Þetta er bara svona. Ef við ætlum að vera hérna án áætlunar og án nefndatímatöflu, margar nefndirnar eiga mjög mikið eftir til að geta klárað mjög viðamikil mál, þá skulum við vera alveg hreinskilin með það að okkur mun ekki einu sinni endast sumarið til að klára þetta, jafnvel þótt menn nýti rétt sinn hóflega til þess að tala í þessum málum. Sumarið með lögbundnu fríi mundi ekki endast í það. Það er bara staðan. Þetta er bara týpísk staða þar sem þarf að setjast niður og forgangsraða (Forseti hringir.) og fara yfir hvaða mál er raunhæft að klára. (Forseti hringir.) Ég vil taka undir með öðrum sem hafa beint því til forseta (Forseti hringir.) að taka sér nú vald í þessum efnum (Forseti hringir.) þar eð starfsáætlun er á hans ábyrgð og virðing þingsins.