144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að skýra þetta út með þessa óskalista, en hvet hann um leið til þess að birta þá lista, það er ágætt að ríkisstjórnin sýni þessi 70 mál sem hún hefur í forgang og óskar eftir að verði afgreidd.

Ég var búinn að heita mér því þegar ég kom í stjórnarandstöðu á þessu þingi að við mundum aldrei fara í þann leik að stöðva mál sem hefðu verið afgreidd samhljóða út úr nefndum. Það var leikið á síðasta kjörtímabili. Þess vegna sátum við uppi með fjöldamörg EES-mál sem höfðu farið í gegnum umsagnir, hlotið sameiginlega afgreiðslu, en fengust svo ekki afgreidd að lokum vegna þess að þá sögðu stjórnarandstöðuformennirnir: Þið megið fá sjö mál í gegn. Þá voru 70, 80 á lista. Við ætlum ekki að gera þetta svona. Við ætlum að fara í gegn með þau mál sem er samstaða um. En ef menn eiga von á því að á milli umræðna, hvort sem um er að ræða þingsályktunartillögur eða lagafrumvörp, komi bara alltaf breytingar, menn séu að lauma einhverju með, henda svo öllu á borðið og segja að þetta verði allt að fara í gegn, þá sé ég ekki nokkurn einasta tilgang fyrir stjórnarandstöðuna að vera hér. Það er eitthvað sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. forseta.