144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, það er bara tilbúningur þeirra sem verja kvótakerfið og vilja halda því eins og það er og fyrir sig, að allir geti komist inn. Það geta ekki allir komist inn ef þú þarft að kaupa þér kvóta fyrir 25 milljónir, kaupa af öðrum. Að mínu mati er það bara setning þegar sagt er: Já, þetta er opið fyrir alla, það geta allir keypt sig inn. Þess vegna er strandveiðifyrirkomulagið, finnst mér, gott.

Hættan við það er hins vegar sú að menn fjárfesti of mikið, það getur verið hættan við strandveiðarnar. Það kemur líka fram að það hefur verið reiknað út að þær séu ekki arðsamar. Og hvað þýðir það? Jú, ekki er greiddur arður af þeim. En ná þær því að greiða fyrir fjárfestinguna? Þá segja menn kannski: Ja, fjárfestingin nýtist annars staðar og þar fram eftir götunum.

Ég held að við þurfum að vera mjög á verði yfir því að ýta ekki um of undir óarðsaman atvinnurekstur hér landi. Við verðum alla vega að átta okkur á því af hverju við gerum það. Jú, þá erum við að því, eins og kemur fram í nefndarálitinu, vegna þess að hliðaráhrifin eru góð. (Forseti hringir.) En við þurfum mjög að vera á verði gagnvart því að ýta undir óarðsemi í atvinnurekstri.