144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Því er einmitt oft haldið á lofti að strandveiðar séu óhagkvæmar og ekki er sama hvaða viðmið eru höfð þar. Ég hef fengið að heyra ýmislegt í þeim efnum þó að ekki séu fræðilegir útreikningar þar á bak við.

Þar á meðal er það að einn einstaklingur sem er með strandveiðibát í fjóra mánuði og veiðir kannski á hann 15 tonn skapi sér með því ágætistekjur til að greiða af fjárfestingu sinni. Einstaklingur á togara þyrfti hins vegar að hafa á bak við sig 200 tonn til að ná sömu tekjum á fjórum mánuðum. Ég ætla ekki að selja þetta dýrara en ég keypti, en mér finnst mjög fróðlegt ef menn bera þetta svona saman.

Í fámennari byggðarlögum, þar sem ekki er neinn möguleiki á að gera út togara eins og var hér áður fyrr, eru þetta oft einu möguleikar einstaklinga til að gera út fyrirtæki á eigin vegum og geta skapað sér vinnu. Við vitum að mjög lítill rekstrarkostnaður er af svona litlum einingum sem á ekki við þegar stórir togarar eru annars vegar; það er gífurleg gjaldeyriseyðsla því að gífurleg olía fer á togara í hverjum túr.

Þegar allt er til tekið og þetta reiknað saman þá er spurning, þegar upp er staðið, hvað það kostar að skapa eitt starf á togara á móti einu starfi sem skapast með þessum hætti. Það breytir líka hvort við miðum við ýtrustu kröfur fjármálafyrirtækja um ávöxtun á eigin fé frekar en að ganga út frá því að hægt sé að framfleyta sér sómasamlega af þessum tekjum eins og er í venjulegri vinnu sem menn stunda.