144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki sjávarbyggðir ágætlega á Vestfjörðum þar sem ég hef búið í 57 ár. Ég veit að hugsun þess fólks sem býr í sjávarbyggðum er þannig að menn vilja vera sjálfbærir og geta bjargað sér á eigin forsendum. Þær breytingar sem hafa orðið við tækniframfarir og aukna menntun skila sér líka út í þessar byggðir og þar er fjölbreytni að aukast í atvinnutækifærum. Tækniþróunin er til góða.

Ég held að það sé hættulegt að þjappa aflaheimildum allt of mikið saman og fara þá leið að horfa til þess að byggðirnar hafi enga möguleika á að stunda útgerð eða vinnslu, þó að þær geti það, vegna þess að þá er verið að gera þessa flóru svo óspennandi og ófjölbreytta að fólk sækist ekki eftir að búa á þessum stöðum. Líka þegar verða kannski um átta stórir togarar á Íslandsmiðum sem sækja allan afla þá verður (Forseti hringir.) þessum afla ekið mjög óhagkvæmt þvers og kruss um landið (Forseti hringir.) frekar en ef hægt væri að vinna hann í nærumhverfi þeirra hafna þar sem fiskurinn (Forseti hringir.) veiðist.